28. fundur
fjárlaganefndar á 154. löggjafarþingi
haldinn í Austurstræti 8-10, föstudaginn 15. desember 2023 kl. 18:43


Mætt:

Stefán Vagn Stefánsson (SVS) formaður, kl. 18:43
Njáll Trausti Friðbertsson (NTF) 1. varaformaður, kl. 18:43
Eyjólfur Ármannsson (EÁ) 2. varaformaður, kl. 18:43
Björn Leví Gunnarsson (BLG), kl. 18:43
Jódís Skúladóttir (JSkúl), kl. 18:43
Jóhann Friðrik Friðriksson (JFF), kl. 18:43
Logi Einarsson (LE) fyrir (KFrost), kl. 18:43
Teitur Björn Einarsson (TBE), kl. 18:43
Vilhjálmur Árnason (VilÁ), kl. 18:43
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (ÞorbG), kl. 18:43

Nefndarritarar:
Ólafur Elfar Sigurðsson

Bókað:

1) 1. mál - fjárlög 2024 Kl. 18:44
Lagt var fram nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar Alþingis og breytingatillögur. Allir nefndarmenn, fyrir utan BLG sem sat hjá, samþykktu að afgreiða frumvarpið til 3. umræðu. Meiri hluti nefndarinnar stendur að nefndaráliti en hann skipa SVS, VilÁ, JFF, NTF, TBE og JSkúl. Minni hlutinn mun ekki leggja fram nefndarálit.

2) 481. mál - fjáraukalög 2023 Kl. 18:49
Lagt var fram nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar Alþingis og breytingatillögur. Allir nefndarmenn, fyrir utan BLG sem sat hjá, samþykktu að afgreiða frumvarpið til 3. umræðu. Meiri hluti nefndarinnar stendur að nefndaráliti en hann skipa SVS, VilÁ, JFF, NTF, TBE og JSkúl. Minni hlutinn mun ekki leggja fram nefndarálit minni hluta. EÁ mun leggja fram breytingatillögur.
Lögð var fram eftirfarandi bókun minni hluta nefndarinnar.

Minni hluti fjárlaganefndar gerir athugasemdir við tímasetningu beiðni um fjárheimild Alþingis til að auka hlutafé í leigufélaginu Bríet ehf. vegna tímabundinna kaupa á allt að 80 íbúðum sem leigja skal til Grindvíkinga.
Þrátt fyrir að unnið hafi verið að kaupferli á umræddum íbúðum í nokkrar vikur og að stefnt sé að því að ljúka því fyrir jól var það fyrst í gær sem fjárlaganefnd var upplýst um málið.
Virðist sem þegar sé búið að ganga frá vali á seljendum til Bríetar. Aðeins eigi eftir að fjármagna kaupin með lagaheimild Alþingis. Fram kemur að alls hafi borist um 1.200-1.300 tilboð vegna 80 eigna.
Fjárlaganefnd hefur ekki verið upplýst um hvernig val á seljendum fór fram og hvernig gætt hafi verið að skilyrðum laga, t.d. um hagsmunaárekstra.
Degi fyrir áætluð þinglok voru áformin kynnt og þess óskað að afgreiðslu málsins yrði lokið. Engin kynning fór fram fyrr en eftir því var sérstaklega gengið af hálfu minni hluta.
Á fundi í morgun með innviðaráðherra, leigufélaginu sjálfu og fulltrúum fjármálaráðuneytis fengust upplýsingar um val á seljendum og söluaðferð.
Skýrt er kveðið á um í 4. gr. laga um húsnæðismál nr. 44/1998 að hlutverk Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sé að eiga og reka leiguhúsnæði á svæðum þar sem skortur er á leiguhúsnæði og bygging íbúða hefur verið í lágmarki eða sérstök vandkvæði eru á að fá fjármögnun á almennum markaði. Engar greiningar liggja fyrir á áhrifum á inngripum ríkisins á fasteignamarkað á umræddum svæðum, þrátt fyrir að um sé um að ræða fimmtung af heildarfjölda kaupsamninga fjölbýla á landinu í hverjum mánuði og umtalsvert hærra hlutfall á þeim svæðum þar sem keypt verður.
Upplýsingar um val á fjármögnunarleið bárust fyrst í morgun. Gert er ráð fyrir að á móti 30% fjárheimild sem óskað er eftir eiginfjárframlagi á frá ríkinu komi lánsfjármagn frá almennum markaði en ekki í gegnum HMS. Félagið Bríet hefur ekki fyrr farið þessa leið fjármögnunar.
Þá er áætlað að kostnaður vegna kaupa og sölu umræddra íbúða skv. gögnum málsins nemi um 400 milljónum fyrir 80 íbúðir, án þess að rökstutt sé hvað búi þar að baki.
Gagnrýnisvert er að fjárlaganefnd Alþingis hafi fyrst verið upplýst um þessi kaup degi fyrir áætluð þinglok.
Að því sögðu áréttar minni hlutinn stuðning sinn við húsnæðisúrræði fyrir Grindvíkinga og furðar sig á því í ljósi hagsmuna sem að baki liggja að ráðherra hafi ekki sýnt málinu og málsmeðferð þess meiri virðingu.

3) Önnur mál Kl. 19:08
Fleira var ekki gert.

4) Fundargerð Kl. 19:09
Fundargerð 27. fundar var samþykkt.

Fundi slitið kl. 19:10